Innlent

Borgarbúar komi að mótun fjárhagsáætlunar

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í dag tillögu, borgarfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, um að útfærðar verði leiðir til þátttöku borgarbúa við mótun fjárhagsáætlunar árið 2010.

„Með þessu móti viljum við að íbúar hafi raunveruleg áhrif á forgangsröðun tiltekinna verkefna í nærumhverfi þeirra áður en gengið verður frá fjárhagsáætlun næsta árs," segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, á vef Reykjavíkurborgar.

Þar segir auk þess að borgarbúum verður gefið færi á að forgangsraða ákveðnum fjármunum til nýframkvæmda og smærri viðhaldsverkefna innan einstakra hverfa. Notast verði við netkosningu um verkefni og/eða atkvæðagreiðslur á opnum borgarafundum.

Skrifstofu borgarstjóra og fjármálaskrifstofu er falið að undirbúa verkefnið í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Tillögur um útfærslu skulu liggja fyrir eigi síðar en 15. október næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×