Lífið

Barði hitar upp fyrir Cannes

Barði Jóhannsson ásamt Hrafni Thoroddsen í tónleikaferðinni í fyrra. Þeir félagar verða í sviðsljósinu í Listasafni Reykjavíkur í kvöld.
Barði Jóhannsson ásamt Hrafni Thoroddsen í tónleikaferðinni í fyrra. Þeir félagar verða í sviðsljósinu í Listasafni Reykjavíkur í kvöld.

Hljómsveitin Bang Gang spilar í Listasafni Reykjavíkur í kvöld á tónlistar­hátíðinni Nokia on Ice. Sveitin hefur einnig bókað sig á kvikmyndahátíðina í Cannes sem verður haldin í maí.

Tónleikarnir í kvöld verða þeir fyrstu hjá Bang Gang á árinu en sveitin var sérlega dugleg í fyrra þegar hún spilaði á um fjörutíu tónleikum víðs vegar um Evrópu. „Þetta verður skemmtilegt. Það er líka gaman að spila í Listasafninu, það er skemmtilegur staður,“ segir Barði Jóhannsson. Með honum á sviðinu verður sama gengi og ferðaðist með honum um Evrópu, þeir Arnar Guðjónsson og Nói Steinn úr Leaves, Hrafn Thoroddsen úr Ensími og bassaleikarinn Stephan Bertrand, ásamt ljósa- og sjónlistamanninum Frank Esposito. „Þegar við héldum útgáfutónleikana í fyrra komst ljósamaðurinn okkar ekki með en hann verður með núna þannig að þetta verður ennþá flottara,“ segir Barði.

21. maí spilar Bang Gang síðan á Cannes-hátíðinni í Frakklandi og hefur þar stórt svið út af fyrir sig við ströndina. „Þetta verður mjög skemmtilegt því ég hef aldrei spilað í Cannes. Ég hef oft spilað í borgunum í kring en aldrei í Cannes.“ Barði fékk giggið eftir að skipuleggjandi tónleikanna hafði samband við höfundarréttar­fyrirtæki hans Universal og óskaði eftir kröftum hans. Kvikmyndaáhugi Barða lék þar lykilhlutverk því tónlist hans hefur hljómað í þó nokkrum bíómyndum í gegnum tíðina og þótti hann því kjörinn í verkefnið.

Fleiri spennandi verkefni eru í gangi hjá Barða, þar á meðal ný plata sem hann tók upp með írska tónlistarmanninum Craig Walker. Lag af henni, Bright Lights Big City, hljómar einmitt í nýjustu mynd frönsku leikkonunnar Catherine Deneuve, La fille du RER, sem verður frumsýnd í næstu viku.

Einnig verða tónleikar sem dúettinn Lady & Bird, hliðarverkefni Barða, hélt með Sinfóníuhljómsveit Íslands gefnir út á geisladiski í haust á vegum EMI úti um allan heim. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.