Innlent

Borgin ætlar í hart við Landsbanka

Gamli Landsbankinn hafnaði í gær kröfu Reykjavíkurborgar um að bankinn greiði henni að andvirði 1,3 milljarða, sem borgin telur sig hafa átt í peningabréfum fyrir bankahrun. Einnig er því hafnað að færa féð yfir í sparibréf, eins og borgin hafði farið fram á föstudaginn 3. október, og fengið rafræna staðfestingu á að hefði verið gert.

Stefán Reykjalín hjá gamla Landsbankanum segir í bréfi til borgarinnar að sparibréf taki einn dag að gera upp.

Mánudaginn 6. október hafi verið búið að loka fyrir viðskiptin. Því hafi færslan verið bakfærð, en borginni barst tilkynning um það síðla dags 7. október.

„Við gefum ekkert fyrir þessi rök," segir Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður. Næsta skref borgarinnar sé væntanlega að fara í mál við gamla Landsbankann. Spurð hvort neyðarlög komi ekki í veg fyrir þetta, en þau banna að farið sé í mál við gömlu bankana, segir hún að næstu vikur fari í að skoða hvaða leiðir séu færar; málið verði sótt af hörku.

Gamli Landsbankinn vill ekki svara spurningum um málið. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×