Erlent

Bretar flytja inn asísk skordýr til illgresisáts

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þetta er aphalara itadori, ránskordýr sem spænir í sig jurtina fallopia japonica.
Þetta er aphalara itadori, ránskordýr sem spænir í sig jurtina fallopia japonica. MYND/PA

Bretar íhuga nú að flytja inn skordýr frá Asíu og láta þau éta japanska illgresisplöntu sem er að verða plága hjá breskum garðyrkjumönnum.

Jurtin sem farin er að gera Bretum lífið leitt er japönsk að uppruna og gengur undir latneska heitinu fallopia japonica. Bretar kalla hana hins vegar knotweed og eru ekki par sáttir þar sem illgresi þetta, sem einna helst líkist bambus í útliti, murkar lífið úr flestum öðrum gróðri í nágrenni sínu með því að ræna hann næringu og bókstaflega éta laufblöð hans.

Sérfræðingar telja að kostnaðurinn við að uppræta innrásarplöntuna í Bretlandi hlaupi á milljörðum punda. Snjallir vísindamenn hafa hins vegar komist að því að í Asíu býr skordýr nokkurt sem þykir gott að gæða sér á fallopia japonica-plöntunni og með því að flytja inn gott hlass af kvikindinu megi væntanlega hindra frekari útbreiðslu plöntunnar á breskri grundu og vonandi þurrka hana gjörsamlega út.

Þessu telur Dick Shaw hjá landbúnaðarrannsóknarstofnun Bretlands að megi koma í kring á um það bil ári og geti skordýrin hafið át sitt næsta sumar eða svo. Ekki er ólíklegt að þessari áætlun verði hrundið í framkvæmd enda er fallopia japonica skaðræðisplanta sem náð getur rúmlega fjögurra metra hæð og brotið upp gangstéttir og hvaðeina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×