Enski boltinn

Tottenham ætlar að reyna að fá Richards í janúar

Ómar Þorgeirsson skrifar
Micah Richards.
Micah Richards. Nordic photos/AFP

Samkvæmt heimildum Daily Mirror mun Lundúnafélagið Tottenham gera tilraun til þess að fá bakvörðinn Micah Richards frá Manchester City þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúar.

Richards hefur ekki átt fast sæti í liði City upp á síðkastið og hefur sjálfur gefið í skyn í viðtölum við breska fjölmiðla að hann væri tilbúinn að skipta um umhverfi.

Tottenham bauð reyndar 5 milljónir punda í leikmanninn fyrir þremur árum síðan en þá ákvað Richards frekar að skrifa undir fjögurra ára samning við City.

Talið er að knattspyrnustjórinn Harry Redknapp hjá Tottenham ætli nú að gera allt til þess að fá Richards en Vedran Corluka og Alan Hutton hafa ekki þótt standa sig nægilega vel í hægri bakvarðastöðunni hjá Tottenham til þessa á tímabilinu.

Redknapp reyndi að fá Glen Johnson síðasta sumar en þurfti að horfa á eftir honum til Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×