Enski boltinn

Chelsea vann Aron Einar og félaga

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar í baráttunni í dag.
Aron Einar í baráttunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea er komið í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir 2-0 sigur á enska B-deildarliðinu Coventry.

Aron Einar Gunnarsson var sem fyrr í byrjunarliði Coventry en byrjunarlið Chelsea var óbreytt frá síðasta leik sem þýddi að Ashley Cole hélt sæti sínu í liðinu þrátt fyrir vandræðaganginn á honum í vikunni.

Didier Drogba skoraði fyrra mark Chelsea á 15. mínútu leiksins eftir varnarmistök í liði Coventry. Drogba stal boltanum af Scott Dann, lék á markvörðinn Kieran Westwood og kláraði færið með góðu skoti. Drogba var þá þegar búið að fá annað gott færi í leiknum en skaut þá framhjá.

Alex skoraði síðara mark leiksins í síðari hálfleik eftir skyndisókn Chelsea. Boltinn barst á hægri kantinn þar sem Ricardo Quaresma gaf glæsilega sendingu inn fyrir vörn Coventry. Þar var Alex mættur og skoraði af öryggi.

Aron átti ágætan leik og tók nokkur löng innköst sem skiluðu þó ekki miklu í þetta sinnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×