Innlent

Kallað eftir víðtækri sátt

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
Óvenjumargir tóku þátt í kröfugöngum verkalýðsins víða um land í gær. Þúsundir tóku þátt í kröfugöngu stéttarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hópur anarkista púaði og barði búsáhöld meðan Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flutti ræðu sína á Austurvelli. Lagt var af stað frá Hlemmi fljótlega eftir hádegi og gengið niður Laugaveginn alla leið niður á Austurvöll þar sem haldinn var hátíðarfundur. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var einn þeirra sem fluttu ávörp. Hann sagði meðal annars að „erfitt og sársaukafullt verkefni“ biði á vinnumarkaði þar sem gera þyrfti nýjan sáttmála milli vinnumarkaðar og stjórnvalda um forsendur varanlegs stöðugleika. Ná þyrfti víðtækri sátt um hvernig þjóðin ynni sig út úr efnahagsvandanum. Gylfi segir að í svona stórum samtökum verði að una því að fólk mótmæli. „Ég hef umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra,“ segir hann. „Ég er mjög rólegur yfir þessu og hef þolinmæði gagnvart þessu. Þetta stuðaði mig ekkert, ég virði bara skoðanir annarra,“ segir hann. „Enn bólar ekkert á raunhæfum ráðstöfunum,“ sagði Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins, í ræðu sinni. „Þvert á móti hefur verið boðaður niðurskurður í velferðarkerfinu og er hans þegar farið að bæta.“ Hælisleitendur vöktu athygli á málstað sínum, meðal annars með því að gefa mat. Fjöldi þátttakenda í kröfugöngunni á Akureyri var í sögulegu hámarki, að sögn lögreglunnar á Akureyri, sem minnist þess ekki að hafa séð svo mikinn fjölda í kröfugöngu þar. Hátíðarhöldin gengu vel fyrir sig enda léttskýjað og fallegt veður á Akureyri. Á Vestfjörðum var einnig afburðagóð þátttaka og hátíðarhöldin fóru vel fram. ghs@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×