Innlent

Skattahækkanir krefjast uppsagna

Kexframleiðsla Varað er við afleiðingum skattahækkana á sætmeti. fréttablaðið/gva
Kexframleiðsla Varað er við afleiðingum skattahækkana á sætmeti. fréttablaðið/gva

Uppsagnir og launalækkanir blasa við hjá þeim íslensku fyrirtækjum sem framleiða vörur sem ætlunin er að beri fjórtán prósenta virðisaukaskatt í stað sjö prósenta eins og nú er.

Níu fyrirtæki í matvælaiðnaði hafa, ásamt Samtökum iðnaðarins, sent alþingismönnum bréf og vakið athygli þeirra á þessu. Í því segir að svo virðist sem ætlun stjórnvalda sé að torvelda starfsemi þeirra með skattahækkuninni. „Fari fram sem horfir er óhjákvæmilegt að við verðum að fækka starfsfólki og draga eins og kostur er úr launakostnaði vegna þeirra sem eftir verða,“ segir í bréfinu.

Skorað er á þingmenn að láta eitt yfir alla ganga og hverfa frá þeirri mismunun sem felst í því að skattleggja sérstaklega vörur gamalgróinna íslenskra iðnfyrirtækja. Undir erindið rita Nói – Síríus, Kjarnavörur, Vífilfell, Frón, Ölgerðin, Kexsmiðjan, Góa, Katla og Freyja ásamt Samtökum iðnaðar­ins. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×