Íslenski boltinn

Ásmundur: Hefðum getað náð einhverju úr þessum leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson. Mynd/daníel

Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis var ekki ánægður með leik sinna manna gegn Val í kvöld og þá sérstaklega í byrjun leiks.

"Þetta var erfitt hjá okkur í dag. Við mættum ekki til leiks og fyrstu 20 mínúturnar voru hreinlega eins og veisla fyrir Valsmenn. Við vorum í raunninni heppnir að þeir skyldu ekki skora fleiri mörk gegn okkur á þessu tímabili og það er auðvitað allt of mikið að gefa Valsmönnum svona mikið í byrjun," sagði Ásmundur í samtali við Vísi.

"Sem betur fer fyrir okkur þá náðu þeir ekki að nýta öll þau tækifæri sem þeir fengu í upphafi og við komumst aðeins inn í leikinn. Við skoruðum og fengum fleiri færi þannig að við hefðum auðvitað getað náð einhverju úr þessum leik. Það var auðvitað ætlunin í seinni hálfleik en Marel rotaði okkur með góðu skallamarki og eftir það var þetta erfitt."

Fjölnismenn hafa tapað í tveimur fyrstu leikjum sínum, gegn Reykjavíkurstórveldunum Val og KR, en Ásmundur sagði framhaldið ekkert hafa breyst.

"Það var viðbúið að þessir tveir leikir yrðu erfiðir þannig að framhaldið hefur ekkert breyst. Við eigum heimaleik gegn Grindavík næst og mætum galvaskir þar. Þeir eru líka með tvö töp á bakinu og ljóst að það verður alvöru barátta þar. Við þurfum að gera breytingar á liðinu því það er einn kominn í bann og annar á meiðslalista, þannig að það verða einhverjar breytingar," sagði Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnis í leikslok.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×