Innlent

Misræmi á orkuþörf leiðrétt

Landsnet. Mynd úr safni.
Landsnet. Mynd úr safni.

Vegna umsagnar Landsnets til Skipulagsstofnunar um afstöðu fyrirtækisins til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og orkuvera á Reykjanesi skal áréttað að Suðvesturlínur munu geta annað aflþörf stækkaðs álvers í Helguvík, ef til kemur, sem og öðrum framtíðaráformum um uppbyggingu iðnaðar og orkuöflun á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Þar segir ennfremur:

Fram kom í umsögn Landsnets að Norðurál hefði hafið framkvæmdir við allt að 360.000 tonna álver í Helguvík og sé aflþörf þess allt að 435MW en hið rétta er að Norðurál hefur hafið framkvæmdir við allt að 250.000 tonna álver í Helguvík með allt að 435 MW aflþörf. Norðurál stefnir hins vegar að stækkun álversins í 360.000 tonn og nemur heildaraflþörf álvers að þeirri stærð 625 MW.

Landsnet sendi bæði Skipulagsstofnun og umhverfisráðuneyti upplýsingar í dag þar sem þetta misræmi í umsögn fyrirtækisins var leiðrétt.

Um leið og beðist er velvirðingar á fyrrnefndri missögn skal jafnframt ítrekað að hún hefur ekki áhrif á mat á umhverfisáhrifum Suðvesturlína né niðurstöðu umsagnar fyrirtækisins til Skipulagsstofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×