Innlent

Óperuhús í Kópavogi slegið af

Tillaga að óperu Bæjarstjórinn í Kópavogi vill flýta sér hægt með að hætta við óperuhúsið.
Tillaga að óperu Bæjarstjórinn í Kópavogi vill flýta sér hægt með að hætta við óperuhúsið.

„Ef þetta gengur eftir þá liggur fyrir að óperuhúsið verður slegið af,“ segir Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri Kópavogs, um samþykkt bæjarráðs frá því á fimmtudag um að leggja niður undirbúningsnefnd um byggingu óperuhúss í Kópavogi.

„Í ljósi aðstæðna sem öllum eru kunnugar er ljóst að fyrirhuguð áform um byggingu Óperuhúss eru að engu orðin. Íslenska óperan mun fá samastað í nýju tónlistarhúsi í Reykjavík. Áætlanir um að fjármagna byggingu hússins með fjárframlögum einkaaðila munu ekki ná fram að ganga sökum aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar,“ sagði í tillögunni sem þrír af fimm bæjaráðsfulltrúum samþykktu á meðan tveir sátu hjá.

Enn á eftir að greiða atkvæði um málið í bæjarstjórn sem tekur endanlega ákvörðun. Gunnsteinn segir að þrátt fyrir að aðstæður sé augljóslega gjörbreyttar og forsendur brostnar vegna efnahagshrunsins finnist sér að málið sé unnið of hratt og samráð skorti við þá sem átt hafi í samstarfi við bæinn um byggingu óperuhússins.

„Það væri kurteisara að gefa sér tíma til að ræða við þessa aðila áður en ákvörðun er tekin,“ segir bæjarstjórinn. Aðspurður segir hann óvíst hver afgreiðsla bæjarstjórnarinnar verður. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×