Erlent

Tsvangirai forsætisráðherra

Sögulegar sættir. Morgan Tsvangirai, t.v., sver embættiseiðinn fyrir framan Robert Mugabe, forseta Simbabve, í Harare. fréttablaðið/ap
Sögulegar sættir. Morgan Tsvangirai, t.v., sver embættiseiðinn fyrir framan Robert Mugabe, forseta Simbabve, í Harare. fréttablaðið/ap

Robert Mugabe Sim­babveforseti skipaði á miðvikudag erkikeppinaut sinn, Morgan Tsvangirai, forsætisráðherra nýrrar þjóðstjórnar. Þykja þetta mikil tímamót eftir nær þrjátíu ára óslitna valdatíð Mugabe, sem einkum og sér í lagi hin síðari ár hefur einkennst af algeru geðþótta-einræði með tilheyrandi kúgun og misbeitingu valds.

Þrýst hefur verið á Mugabe að víkja alveg frá völdum, en hann hefur ekki gefið neitt annað til kynna en að hann hyggist sitja sem fastast enn um sinn.

Mugabe, sem nýlega lýsti því yfir að hann „ætti“ Simbabve, gekk lengra í að koma til móts við kröfur stjórnarandstöðunnar en flestir höfðu búist við.

Eftir stutta embættistökuathöfn í garði forsetabústaðarins í Harare tjáði Tsvangirai fjölmiðlum, að hann vissi að margir væru „tortryggnir út í þetta fyrirkomulag. En þetta er eina færa leiðin. Ég skora á landsmenn að sýna þolinmæði og gefa okkur tíma.“

Efnahagur Simbabve, sem á árum áður státaði af einum bestu lífskjörum Afríku, er ein rjúkandi rúst. Stór hluti íbúanna er algerlega háður matargjöfum alþjóðlegra hjálparstofnana og kóleru-faraldur hefur orðið minnst 3.400 manns að aldurtila síðan í ágúst.

- aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×