Innlent

Ömurleg umgengni útrásavíkings á Þingvöllum

Karen Kjartansdóttir skrifar

Eitt brýnasta verkefni Þingvallanefndar í friðlandi þjóðgarðsins, er að taka á ömurlegri umgengni við hálfkarað sumarhús Ágústs Guðmundssonar, Bakkavararbróður, segir formaður nefndarinnar. Ruslið verður ekki fjarlægt í vetur.

Til að koma húsinu fyrir þurfti að sprengja mörg tonn af klöpp við vatnið í burtu. Framkvæmdirnar vöktu athygli á sínum tíma enda þurfti að fara ófáar ferðir á þyrlu til og frá Þingvöllum með úrgang og steypu. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að engar framkvæmdir hafa verið við húsið frá því í bankahruninu í október 2008 en þau eru ófá tonnin af drasli sem liggja eftir auk þess sem mikið rusl mun hafa fokið af byggingarlóðinni og út á vatnið.

Í stefnumörkun Þingvalla stendur að mikilvægt sé að raska ekki gróðri og dýralífi í vatninu frekar og gæta þess að framkvæmdir hafi ekki slík áhrif. Það er nokkuð ljóst að Ágúst hefur ekki orðið við þeim tilmælum.

Álfheiður Ingadóttir formaður Þingvallanefndar vildi þó hvorki tjá sig um til hvaða viðurlaga yrði gripið vegna þessa né um það hvort til standi að rifta lóðaleigusamning við Ágúst en allir lóðasamningnar innan þjóðgarðsins renna út um mitt næsta ár.

Samkvæmt fundi Þingvallanefndar stendur til að þá verði búið að endurskoða alla samningna í heild sinni sem og byggingaskilmála. Hún segir þetta verða meðal þeirra verka sem bíði nýs framkvæmdastjóra á svæðinu en eftir á að ráða í þá stöðu.

Ekki náðist í Ágúst en samkvæmt talsmanni hans stendur til að hreinsa til á svæðinu með hækkandi sól.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×