Íslenski boltinn

Sindri Snær: Ég gerði stór mistök og tek þetta á mig

Ragnar Vignir skrifar
Sindri Snær Jensson, markvörður Þróttar.
Sindri Snær Jensson, markvörður Þróttar. Mynd/Valli

Sindri Snær Jensson, markvörður Þróttar, var hreinskilinn um sín mistök eftir 1-5 tap á móti Grindavík á Valbjarnavelli í gærkvöldi. Sindri Snær fékk á sig skrítið mark í upphafi leiks.

„Það sem gerðist var að ég geri stór mistök, þetta bara gerist. Ég ætlaði að grípa boltann og hætti að hugsa. Það eru engar afsakanir og ég tek þetta algjörlega á mig. Það klúðruðu margir mörgu í kvöld og ég átti bara minn þátt í því," sagði Sindri Snær.

„Þetta er svo erfitt þegar við erum komnir út í það að vera alltaf að tapa leikjum svona stórt. Ég veit ekki hvað menn eru að gera þegar við einfaldlega gefumst upp. Við þurfum að bæta hugarfarið og rífa okkur upp. Þegar við erum góðir þá getum við margt en svo þegar illa gengur fara menn stundum hver í sína holu og það er einfaldlega eitthvað sem við þurfum að laga," sagði Sindri.

„Við erum klárlega betri en mörg lið fyrir ofan okkur en við þurfum að bæta okkur heilmikið ef við ætlum að halda okkur í þessari deild. Við þurfum að breyta hugarfari leikmanna mikið, menn eru bara sáttir með að vinna einn leik og búið, það sem okkur vantar er sigurhugarfarið," sagði Sindri Snær ákveðinn að lokum við Vísi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×