Innlent

Fráleitt að kalla ekki bandarískan sérfræðing til fyrr

Guðný Helga Herbertsdóttir og Helga Arnardóttir skrifar

Þingmaður Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd segir fráleitt að bandarískur sérfræðingur í skuldaþoli þjóða hafi ekki verið kallaður fyrr til vegna Icesave málsins. Sérfræðingurinn segir ótímabært að semja um skilmála Icesave fyrr en betri mynd fæst af því hvað kemur út úr eignum Landsbankans.

Fjárlaganefnd fundaði tvisvar fyrir hádegi í dag, m.a. með Lee Bucheit, bandarískum sérfræðingi í þjóðarskuldum. Hann segir að vegna þeirrar óvissu sem ríkir um hvað fæst fyrir eignir Landsbankans sé upphæðin sem verið sé að semja um óljós og af þeim ástæðum sé ótímabært að semja um lánskjör.

Heimildir fréttastofu herma að ríkisstjórninni hafi boðist að kalla til Bucheit sem ráðgjafa fyrir íslensk stjórnvöld eftir hrunið síðastliðið haust en það var ekki gert. Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknar í fjárlaganefnd segir fráleitt að hann hafi ekki verið kallaður til fyrr.

Elías Guðjónsson, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, sagði í samtali við fréttastofu að sú leið sem Bucheit lagði til, þ.e. að bíða með að semja um samningskjör þar til eignum þrotabús Landsbankans væri komið í verð, hafi verið lögð fram við Icesave samningaviðræðurnar, en hafnað af Bretum og Hollendingum.

Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar segist vona að Icesave frumvarpið verði afgreitt úr nefnd á morgun en hann virðist meira að segja fullur efasemda um frumvarpið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×