Innlent

Hannes skýtur föstum skotum á flokkssystur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hannes Hólmsteinn Gissurarson skaut föstum skotum á Erlu Ósk Ásgeirsdóttur á Facebook síðu hennar.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson skaut föstum skotum á Erlu Ósk Ásgeirsdóttur á Facebook síðu hennar.
Hreinskiptin skoðanaskipti hafa verið á Facebook um pistil sem Erla Ósk Ásgeirsdóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði á vefsíðu sína á sunnudaginn. Í pistlinum mærir Erla Ósk Davíð Oddsson fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins. Hún segir hins vegar að innihald ræðu hans á landsfundi á laugardaginn hafi hvorki verið honum né Sjálfstæðisflokknum til framdráttar. Þau hörðu skot sem þar hafi fengið að fjúka bæði gagnvart samflokksmönnum og pólitískum andstæðingum hafi verið á lágu plani og honum ekki til sóma. „Ég er stoltur Sjálfstæðismaður og afar ánægð með þá vinnu sem hefur verið unnin hér á landsfundinum og í aðdraganda hans. Davíð talar því ekki fyrir mína hönd," segir Erla Ósk.

Segja má að viðbrögðin sem Erla hefur fengið við pistlinum á Facebook síðu sinni séu mikil og góð. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, bendir Erlu þó á að Davíð hafi enga tilraun gert til að tala fyrir hennar hönd. „Hann talar fyrir sig og þú fyrir þig. Landsbankinn þarf til dæmis ekki að gefa út neina yfirlýsingu um, að þú talir ekki fyrir hans hönd, þótt þú hafir starfað hjá honum, meðal annars við Icesave-reikningana frægu," segir Hannes.

Þess má geta að Erla Ósk Ásgeirsdóttir er með BA gráðu úr stjórnmálafræði við Háskóla Íslands þar sem Hannes kennir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×