Innlent

„Sorrí Stína er ekki nóg“

Ingimar Karl Helgason. skrifar

Vistin á Kumbaravogi var ein sorgarsaga sem hefur skilið eftir sig ör, segir aðstandandi systkina sem þar voru vistuð.

Meðferð barna á vistheimilum fyrri tíðar er svartur blettur í sögu þjóðarinnar, segir forsætisráðherra, sem biðst afsökunar á meðferð sem börn þurftu að sæta á þremur vistheimilum.

Aðstandandi segir að ekki sé nóg að biðjast afsökunar. Tugir barna sættu illri meðferð og í sumum tilvikum kynferðisofbeldi í heyrnleysingjaskólanum, á Kumbaravogi og Bjargi.

Áfangaskýrsla nefndar sem rannsakar vist barna á ýmsum heimilum var birt í dag. Kunn er skýrsla nefndarinnar um Breiðavíkurdrengi. Skýrslan, sem er ríflega fjögur hundruð blaðsíður að umfangi, fjallar um heyrnleysingjaskólann, heimilið að Kumbaravogi og Bjarg, á tilteknu árabili.

Róbert Spanó, formaður nefndarinnar sem útbjó skýrsluna, segir að almennt hafi opinberu eftirliti með stofnununum verið ábótavant.

Róbert bætir því við að hugsanlega hafi margir sem þarna voru þurft að þola illa meðferð og sumir kynferðisofbeldi, af hálfu utanaðkomandi fólks, starfsfólks eða samnemenda, í tilviki heyrnleysingjaskólans. Líkur séu til þess að hluti vistmanna á Kumbaravogi hafi þurft að þola kynferðisofbeldi. Að öðru leyti hafi vistmenn þar ekki sætt illri meðferð eða ofbeldi.

Ekki eru allir sammála því.

Tvö frændsystkini Guðrúnar Sverrisdóttur, voru vistuð á kumbaravogi. Drengurinn var þriggja eða fjögurra ára og stúlkan sex ára þegar þau voru tekin frá foreldrum sínum. Guðrún segir að þau hafi verið látin vinna myrkranna á milli.

„Þetta er bara ein sorgarsaga," segir Guðrún. En hvaða áhrif hefur þetta haft á frændsystkinin? „Auðvitað skilur þetta eftir sig stór og mikil ör, að börnin séu svona fjarri fjölskyldu og foreldrum," segir Guðrún, og bætir því við að enda þótt foreldrarnir hafi lagt sig fram um að bæta sig, en börnin voru tekin frá þeim í upphafi, hafi það lítið stoðað.

Guðrún segir að frændi sinn hafi farið mjög illa út úr vistinni. Hann hafi síðar svipt sig lífi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag, að þessi mál væri svartur blettur í sögu þjóðarinnar. „Þá tel ég fulla ástæður til þess að biðjast afsökunar fyrir hönd stjórnvalda."

Það er ekki nóg fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að segja sorrí Stína. Það verður að bæta þessum börnum og þessu fólki sem enn er lifandi, upp þessa vist á Kumbaravogi. Það var ekkert eftirlit með þessu og það er á ábyrgð ríkisins. Þetta var bara eins og bankahrunið; ekki eftirlit með neinu," segir Guðrún Sverrisdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×