Innlent

Íhuga að hætta í óeirðadeild

Talsverður fjöldi lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu íhugar að hætta í óeirðadeild embættisins vegna óánægju með breytingar á vinnufyrirkomulagi.

Mikil óánægja er með nýtt fyrirkomulag, sem gerir ráð fyrir þremur fleiri vinnudögum í mánuði án þess að greiðsla komi á móti, sagði Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, þegar haft var samband við hann í gærkvöldi. Félagsmenn munu funda vegna málsins í dag.

Óskað hefur verið eftir því að breytingum á vinnufyrirkomulagi verði frestað fram yfir orlofstímann, enda valda þær óvissu, segir Arinbjörn. Boðið hafi verið upp á málamiðlun, en hvoru tveggja hafi verið hafnað. Hann segir að ekki hafi verið farið eftir leikreglum sem gilda um kjarasamninga.

Þeir lögreglumenn sem eru í óeirðadeild Lögreglu höfuðborgarsvæðisins hafa haft val um að taka að sér það hlutverk og stjórn Lögreglufélagsins telur að þeir hafi einnig val um að hætta, segir Arinbjörn. Ljóst sé að margir treysti sér ekki til þess að taka á sig aukna vinnu og vera áfram í óeirðadeildinni.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×