Innlent

43 Íslendingar hafa fengið vinnu í Manitoba

Innflytjendaráðherra Manitoba í Kanada segir að búið sé að finna störf fyrir fjörutíu og þrjá Íslendinga í fylkinu. Íslendingarnir fá þó enga flýtimeðferð.

Manitoba og Ísland gerðu í mars með sér samning um að útvega Íslendingum vinnu í fylkinu í eitt ár. Stefnt var að því að gera ferlið styttra og sveigjanlegra en venjulega gerist með atvinnuleyfi til útlendinga. Síðan hefur lítið frést af málinu.

Í vefritinu Manitoba Free Press í dag er viðtal við Nancy Allan innflytjendaráðherra sem segir að búið sé að finna vinnu fyrir fjörutíu og þrjá Íslendinga hjá sex mismunandi fyrirtækjum og stofnunum. Það er í heilsugæslu, byggingavinnu og kennslu. Allan segist ánægð með þennan árangur en segir að nokkur tími muni líða þartil Íslendingarnir geti hafið störf.

„Það er enginn Íslendingur kominn með táslurnar á kanadíska jörð ennþá", sagði ráðherrann. Meðal þess sem tefur málið er að alríkisstjórnin í Ottawa þarf að gefa vinnuveitendunum samþykki sitt fyrir því að erlendum ríkisborgurum sé veitt atvinnuleyfi.

Þar er meðal annars litið til þeirra áhrifa sem atvinnuleyfin hafi í Kanada, meðal annars hvort þau geti valdið því að Kanadammenn verði af vinnu.

Það er einnig litið til þess hvort innflytjendurnir færi með sér þekkingu sem getur gagnast landinu og að þeir fái sömu laun og boðn eru á vinnumarkaði. Allan segir að umsóknir Íslendinganna fái enga flýtimeðferð. Ferlið eigi að tryggja að enginn Kanadamaður missi vinnu til innflytjenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×