Innlent

Háskólanemar sviku út 300 milljóna bætur

345 háskólastúdentar í lánshæfu námi voru skráðir atvinnulausir á síðasta skólaári og þáðu atvinnuleysisbætur sem þeir áttu ekki rétt á. Þetta kom í ljós þegar nemendaskrár háskólanna voru keyrðar saman við upplýsingar um þá sem þegið hafa atvinnuleysisbætur.

Talið er að nemendurnir hafi þegið samtals um það bil 300 milljónir króna úr Atvinnuleysistryggingarsjóði á síðasta ári.

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, segir að ekki liggi fyrir nákvæmar tölur, en 300 milljónir eru taldar nærri lagi. Verið er að vinna úr upplýsingum um stöðu háskólastúdentanna gagnvart Atvinnuleysistryggingarsjóði.

Sumir úr hópnum fengu tekjutengdar bætur, sem atvinnulausir fá fyrstu mánuðina eftir atvinnumissi. Aðrir fengu almennar atvinnuleysisbætur, sem eru 149.000 krónur á mánuði.

Í þriðja hópnum eru þeir sem skráðu sig sem atvinnulausa námsmenn í fyrrasumar en héldu áfram að skrá sig atvinnulausa eftir að þeir fóru aftur í nám í fyrrahaust. Þeir fengu atvinnuleysisbætur, sem eru að meðaltali 110.000 krónur á mánuði fyrir þennan hóp námsmanna sem hafa ekki öðlast full réttindi á vinnumarkaði. Grunnframfærsla námslána samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna var hins vegar 100.600 krónur á mánuði.

Nemendaskrár og skrár Atvinnuleysistryggingarsjóðs eru nú að fullu samkeyrðar og á það að koma í veg fyrir að svona mál endurtaki sig.

Nokkrir dagar eru síðan félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra kynntu breytingar sem fela í sér að réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta á sumrin er afnuminn. Samhliða voru frítekjumörk þeirra sem fara í lánshæft nám eftir atvinnumissi hækkuð, til þess að auðvelda fólki að hefja lánshæft nám frekar en að skrá sig atvinnulaust.- pg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×