Innlent

Samgöngumiðstöð í óvissu

Áform um samgöngumiðstöð í Vatnsmýri eru í uppnámi eftir að Reykjavíkurborg þrengdi mjög þá lóð sem henni er ætluð norðan Loftleiðahótels. Verkefnisstjórn efast um að samgöngumiðstöðin rúmist á lóðinni.

Samgönguráðherrar og borgarstjórar síðustu fimm ára hafa verið að undirbúa samgöngumiðstöð og þótt borgin hafi fyrir einu og hálfu ári lofað að klára skipulagsvinnu innan hundrað daga eru þau mál enn óskýr.

Ólafur Sveinsson, verkefnisstjóri samgöngumiðstöðvar, segir að það séu í raun aðeins örfáir dagar frá því endanleg lega Hlíðarfótar var ákveðin en framkvæmdir eru þegar hafnar.

Já, vinnuvélar eru byrjaðar að grafa fyrir Hlíðarfæti, milli Hringbrautar og Loftleiðahótels, en bara alls ekki á þeim stað sem fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir. Til að laga skipulagið að verðlaunatillögu, sem gerir ráð fyrir að flugvöllurinn hverfi úr Vatnsmýri, er borgin nefnilega búin að breyta legu götunnar og þrengja svo að samgöngumiðstöðinni að verkefnisstjórn hennar efast nú um að hún komist þar fyrir. Ólafur segir að lögun lóðarinnar, stærð hennar og takmarkanir á nýtingu hennar, geri það að verkum að verkefnisstjórnin vilji skoða aðra valkosti.

Það er auðheyrt að verkefnisstjórnin er ósátt við þá breytingu sem borgin gerði. Spurður hvort hún hafi verið gerð í samráði við verkefnisstjórnina segir Ólafur að hún ráði engu um það, borgin sé með skipulagsvaldið. "En þetta voru ekki okkar óskir að þetta yrði svona, þannig að það sé ljóst," segir Ólafur.

En þýðir þetta að hugmynd um alhliða samgöngumiðstöð sé úr sögunni? Um það vill Ólafur ekkert segja á þessari stundu.

Samgöngumiðstöðin er á lista ríkisstjórnarinnar frá því í vor yfir þau verkefni sem átti að drífa í gang vegna efnahagsástandsins. Fátt bendir til þess að fyrstu hamarshöggin heyrist á næstunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×