Enski boltinn

Wenger segir boð City úr takti við raunveruleikann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að tilboð Manchester City í Brasilíumanninn Kaka sé algerlega úr takti við hinn blákalda raunveruleika sem ríkir í viðskiptalífi heimsins í dag.

„Þetta virðist ekki vera í takti við það sem er að gerast í heiminum í dag," sagði Wenger. „Ég finn ekki fyrir neinum tengslum við það sem er að gerast í þessu máli. Hjá mínu félagi búum við hinn raunverulega heim knattspyrnunnar. Við höfum þrjár tekjulindir - miðasölu, styrktarsamningar og tekjur af sjónvarpsrétti. Þetta er hinn raunverulegi heimur knattspyrnunnar - allt annað er undantekning."

„Þeir eru þarna með ótæmandi tekjulind og gangi þeim vel. Þetta stríðir vissulega ekki gegn reglunum en það mætti segja sem svo að þetta sé ósanngjörn samkeppni."

Kreppan hefur haft sín áhrif í Bretlandi og benti Wenger á að daglega missa þrjú þúsund manns sín störf.

„Ef einhver heldur að þessi þróun hafi ekki áhrif á knattspyrnuna þá er það kolrangt," bætti Wenger við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×