Íslenski boltinn

Heimir: Höfum oft spilað betur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, segir að sínir menn hafi oft spilað betur en þeir gerðu í kvöld en gat þó ekki verið annað en ánægður með að skora þrjú og halda markinu hreinu.

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og fengum mark fljótlega. Síðan hleyptum við Fjölni of mikið í leikinn og þeir náðu að skapa sér hálffæri. Við höfum oft spilað betur en við nýttum vængina betur en við höfum verið að gera," sagði Heimir.

„Fjölnir er fínt fótboltalið en missti mikið af mönnum fyrir tímabilið. Það eru að koma ungir leikmenn upp hjá þeim og það tekur tíma að ná að fóta sig í þessari deild. Þeir hafa spræka leikmenn eins og Aron (Jóhannsson) á vinstri vængnum sem var að valda okkur vandræðum á köflum."

Björn Daníel Sverrisson átti góðan leik og skoraði tvö fyrstu mörk FH í dag. "Hann er góður að tímasetja hlaupin sín og skoraði tvö mörk, hann hefði samt átt að skora fleiri," sagði Heimir.

Annað mark FH kom strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks og viðurkennir Heimir að það hafi verið ansi mikill léttir að fá það mark. „Fyrir Fjölni að fá á sig mark strax í upphafi hálfleiksins var erfitt. Þá þurftu þeir að koma hærra upp völlinn sem hentar okkur ágætlega," sagði Heimir.

Leikmenn FH geta þakkað fyrir að hafa náð sigri í kvöld. „Það hefði ekki verið hægt að fara í tveggja vikna frí með tap á bakinu. Það hefði kostað það að ég hefði látið leikmenn hlaupa stanslaust í tvær vikur!" sagði Heimir brosandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×