Innlent

Indverjar standa straum af ferðakostnaði

Ólafur Ragnar Grímsson
Ólafur Ragnar Grímsson

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun fara til Indlands um miðjan janúar næstkomandi og taka við Nehru-verðlaununum sem hann hlaut á síðasta ári. Það eru indversk stjórnvöld sem bjóða forsetanum en auk hans fer Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Indversk stjórnvöld munu standa straum af öllum kostnaði vegna ferðarinnar samkvæmt Örnólfi Thorssyni forsetaritara.

Nehru-verðlaun er æðsta viðurkenning sem Indverjar veita. Verðlaunin voru stofnuð í minningu Jawaharlal Nehru, leiðtoga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og fyrsta forsætisráðherra Indlands, en Nehru gegndi því embætti í um tvo áratugi.

Ólafur Ragnar hlaut verðlaunin fyrir árið 2007. Indland er eins og kunnugt er fjölmennasta lýðræðisríki veraldar og forseti landsins, frú Pratibha Devisingh Patil, mun síðar afhenda Ólafi Ragnari verðlaunin við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Nýju-Delí að viðstaddri ríkisstjórn og forystusveit Indlands. Auk viðurkenningarskjals og verðlaunagrips fylgir verðlaununum fjárupphæð sem nemur 5 milljónum indverska rúpía.

Meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin eru Martin Luther King, forystumaður í réttindabaráttu blökkumanna, Nelson Mandela, leiðtogi Suður-Afríku, Móðir Teresa, leiðtogi í mannúðar- og líknarstarfi, og Helmut Kohl, kanslari Þýskalands ásamt Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar.

Við þennan lista má bæta að bæði Robert Mugabe, forseti Simbabve, og Tito, leiðtoga Júgóslavíu. Mugabe fékk verðlaunin árið 1989 og Tito árið 1971. Þá fékk Jassir Arafat, leiðtogi Palestínumanna, verðlaunin árið 1988. Enn fremur fékk keníska baráttukonan og friðarverðlaunahafinn Wangari Maathai Nehru-verðlaunin árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×