Innlent

Katrín um launamál Rúv: Vel í lagt hjá efstu mönnum

Breki Logason skrifar
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að vinna sé þegar hafin við endurskoðun á þjónustusamningi við Rúv og meðal annars sé verið að skoða launauppbygginguna innan félagsins. Í árshlutauppgjöri Rúv frá 1.september til loka febrúar á þessu ári kemur fram að tap félagsins sé rúmar 365 milljónir króna. Páll Magnússon útvarpsstjóri fær rúma 1,5 milljón króna á mánuði. Katrin segir vel í lagt hjá efstu mönnum.

„Það er vinna í gangi núna eftir að við skrifuðum undir samning um að auka eigið fé Rúv þann 22.apríl. Við það varð eiginfjárstaðan jákvæð aftur en partur af því er að endurskoða þjónustusamninginn við Rúv, endurskoða samþykktirnar og launauppbygginguna innan félagsins," segir Katrín.

„Það eru náttúrulega allir búnir að taka á sig launalækkun en það er vel í lagt þarna hjá efstu mönnum. Það er eitthvað sem við munum vinna í og ná samkomulagi við Rúv um."

Aðspurð um tap Rúv sem er um 60 milljónir á mánuði segir Katrín fjármagnskostnaðinn vera stærsta liðinn þar.

„Það eru einkum gjöldin sem eru að valda þeim vandræðum og það er áhyggjuefni. Það er einmitt hluti af því að við tókum þetta yfir í lok apríl til þess að rétta við eiginfjárstöðuna. Síðan þurfum við að skoða hvernig þetta Ohf-form virkar og hvað við getum lært af reynslunni á því."








Tengdar fréttir

RUV tapar 60 milljónum á mánuði

Tap RUV ohf. nam rúmlega 365 milljónum kr. á tímabilinu frá 1. september í fyrra og fram til loka febrúar í ár samkvæmt árshlutareikningi félagsins. Þetta samsvarar því að RUV hafi tapað rúmum 60 milljónum kr. á hverjum mánuði tímabilsins.

Rekstur RÚV á áætlun

Ríkisútvarpið tapaði 365 milljónum króna á sex mánaða tímabili frá byrjun september til loka febrúarmánaðar síðastliðins. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sem birtur var í dag. Aukinn fjármagnskostnaður skýrir tapið segir útvarpsstjóri. Hann segir rekstur RÚV vera á áætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×