Innlent

Segir hund hafa étið læri af lifandi lambi

Lamb sem hundur drap Ömurleg aðkoma var að lambinu sem hundur drap ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal.
Lamb sem hundur drap Ömurleg aðkoma var að lambinu sem hundur drap ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal.

„Lambið hefur áreiðanlega verið lifandi þar til búið var að éta helminginn af lærinu,“ segir Hreinn Ólafsson, fjárbóndi í Helgadal ofan við Mosfellsdal.

Tvö lömb fundust dauð á þriðjudag við ána Köldukvísl, um fimm hundruð metra fyrir ofan Gljúfrastein. Talið er öruggt að þau hafi verið drepin af hundi. Að sögn Hreins er aðeins einn og hálfur mánuður frá því sex ær fundust drepnar af hundum í Seljadal ofan við Helgadal.

„Það eru þrír litlir fjárbændur hérna í dalnum og við erum búnir að missa sextíu til sjötíu fjár á sex eða sjö árum í hunda. Þetta er náttúrlega heimsmet,“ segir Hreinn.

Á bæjarskrifstofunni í Mosfellsbæ fékkst staðfest að sá fjöldi kinda sem Hreinn nefnir hefði verið drepinn af hundum í Mosfellsdal á undanförnum árum. Enginn vafi leiki á því að um hunda hafi verið að ræða.

Eins og áður kemur fram telur Hreinn lömbin tvo ofan við Gljúfrastein hafa verið lifandi meðan hundurinn át sig inn í þau. „Það er ekki skemmtilegur dauðdagi að láta hund drepa sig,“ bendir fjárbóndinn á. Hreinn kveðst hafa grun um hvaða hundur hafi verið að verki nú síðast. „En það er ekkert staðfest,“ ítrekar hann.

Að sögn Hreins hefur megnið af áðurnefndum sextíu til sjötíu tilvikum þar sem hundar hafa drepið fé í sveitinni verið upplýst. Eigendur hundanna eða tryggingar þeirra hafi þá greitt bætur fyrir kindurnar og hundarnir verið felldir. Síðast hafi tveir hundar verið drepnir fyrir þremur árum. „Þeir hafa verið skotnir hérna á túnunum á færi,“ upplýsir hann.

Hreinn segir mikinn fjölda hunda vera í sveitinni. „Ég gæti trúað að um þriðjungur þeirra sé látinn ganga laus og það er gallinn. Fólk verður að passa þetta betur. Lögreglan hefur engan tíma enda er hún á harðahlaupum á eftir sófasettum um allar jarðir,“ svarar Hreinn spurður hvað sé til ráða.

Lömb ánna sex sem drepnar voru í Seljadal fyrr í sumar eru enn ófundin að sögn Hreins.

„Við finnum ekki lömbin og þangað til annað kemur í ljós höldum við að þeim hafi verið stolið,“ segir fjárbóndinn í Helgadal.gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×