Íslenski boltinn

Lúkas Kostic: Ég er mjög ánægður með stigið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lúkas Kostic, þjálfari Grindavíkur, sést hér á hliðarlínunni í kvöld.
Lúkas Kostic, þjálfari Grindavíkur, sést hér á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/Vilhelm

Lúkas Kostic stjórnaði Grindavík í fyrsta sinn í kvöld og liðið var ekki langt frá því að vinna Valsmenn á Vodafone-vellinum. Lúkas var sáttur með sína stráka og grét ekki töpuð stig.

„Þetta er gríðarlega stórt stig fyrir framtíðina hjá liðinu í sumar. Ég er mjög ánægður með stigið. Ég lagði áherslu á það fyrir leikinn að fá stig og fá strákana til að berjast. Það er erfitt að vera búnir að tapa þremur leikjum í röð og koma á Vodafone-völlinn í leit að stigi. Þetta var magnað stig og var sigur fyrir okkur," sagði Lúkas.

„Þetta eru ungir strákar og ég er gríðarlega ánægður með þá," sagði Lúkas Kostic og nefndi sérstaklega Óskar Pétursson í markinu, Boga Rafn Einarsson í miðverðinum, Jósef Jósefsson í vinstri bakverðinum og Marko Valdimar Stefánsson sem lék sem afturliggjandi miðjumaður.

„Þetta eru kornungir strákar sem voru magnaðir í kvöld og ég man ekki eftir að þeir gerðu mistök. Ég vill líka hrósa öllu liðinu og reynsluboltarnir skiluð sínu líka. Við eigum mjög efnilega leikmenn og líka reynslubolta. Við verðum að fá alla til að vinna saman. Ég sé það eftir einn mánuð hvert liðið stefnir," sagði Lúkas.

„Við erum bara búnir að vera saman á þremur æfingum og við erum langt frá þeirri spilamennsku sem ég held að ég geti náð úr þessu liði. Ég bjóst ekki við meiru," sagði Lúkas og bætti við: "Það vantar meira sjálfstraust í liðið til þess að gera það sem við getum. Við getum spilað boltanum betur og getum líka verið grimmari varnarlega," sagði Lúkas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×