Innlent

Finnur og Sigrún komin til Íslands

Finnur og Sigrún eru komin til sumardvalar á Íslandi. Myndin er hins vegar ekki af þeim heldur félögum þeirra sem halda til á Tjörninni.
Finnur og Sigrún eru komin til sumardvalar á Íslandi. Myndin er hins vegar ekki af þeim heldur félögum þeirra sem halda til á Tjörninni.
Félagarnir Finnur og Sigrún eru komnir til Íslands. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að fyrr í vetur settu breskir fuglafræðingar á vegum The Wildfowl & Wetlands Trust gervihnattasenda á 40 álftir á Bretlandi í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum þeirra.

Finnur og Sigrún eru sem sagt tvær þessara álfta. Þau eru nú komin til Íslands og er önnur álftin í nágrenni Hellu en hin á Mýrum við Hornafjörð, eftir því sem kemur fram á vefnum Sunnlendingur. Fyrstu álftirnar koma alla jafnan til Íslands í byrjun mars en álftirnar hafa vetursetu á Bretlandseyjum. Síðastliðinn laugardag sást 141 álft í Lóni austan Hornafjarðar en Lónið er vinsæll áningastaður þeirra.

Öllum merktu álftunum voru gefin nöfn og er Sigrún við Hellu en hún kom til Íslands 11. mars. Finnur er á Mýrunum við Hornafjörð og kom hann til landsins síðastliðinn föstudag, 13. mars.

Ólafur Einarsson, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, er einn helsti álftasérfræðingur Íslands og hann segist í samtali við Sunnlending.is fylgjast spenntur með ferðum álftanna. „Álftirnar eru mjög snjallar að tímasetja flug sitt rétt svo þær nái hagstæðum vindum yfir hafið. Tvær merktar álftir snéru t.d. við eftir að hafa verið á flugi yfir hafið í um það bil sólarhring og bíða þær nú hagstæðara veðurs," segir Ólafur.

Fleiri merktar álftir eru væntanlegar til Íslands á næstu vikum en undanfarna daga hafa þær verið að færa sig norður eftir Bretlandi. Verði fólk vart við þessar merktu álftir er það beðið að hafa samband við Náttúrufræðistofnun Íslands en þar á bæ er áhugi fyrir að afla nákvæmra upplýsinga um ferðir álftanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×