Innlent

Safnað fyrir innanlandsaðstoð

Ef allir landsmenn leggja sitt af mörkum munu um 32 milljónir króna safnast og renna í beina aðstoð innanlands.
Ef allir landsmenn leggja sitt af mörkum munu um 32 milljónir króna safnast og renna í beina aðstoð innanlands.

„Okkar markmið er að hvert mannsbarn á Íslandi gefi 100 krónur," segir Vilborg Oddsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar um landssöfnun sem hefst í dag í samstarfi við Rauða kross Íslands. Vilborg segir söfnunina vera tilkomna vegna aukinnar þarfar á aðstoð innanlands í kjölfar breyttra aðstæðna í landinu og er miðað við að safna 32 milljónum króna ef allir landsmenn taka þátt.

„Frá og með deginum í dag getur fólk hringt í númerið 9015100. Þá renna 100 krónur óskiptar í söfnunina, en símafélögin gefa sína þjónustu. Við höfum fundið í gegnum tíðina að þeir sem standa höllum fæti og hafa ekki mikið fjármagn vilja samt vera með svo með því að hafa þetta 100 krónur geta allir lagt sitt af mörkum. Við ljúkum svo söfnuninni í Kastljósi á föstudagskvöldið þar sem við förum yfir ástandið eins og það er í dag, en tölum einnig um hvað fólk getur gert til að byggja sig upp," útskýrir Vilborg.

„Afrakstrinum verður skipt jafnt milli Hjálparstarfs kirkjunnar og Rauða krossins og nýttur í beina aðstoð við fólk úti um allt land, bæði fyrir mat og aðra almenna aðstoð. Við erum að undirbúa okkur fyrir næsta vetur og horfa á hvað við getum gert til að mæta fjölskyldum í landinu sem eru ekki í sömu sporum og þær voru ef til vill fyrir hálfu ári síðan," segir Vilborg. -ag




Fleiri fréttir

Sjá meira


×