Innlent

Meirihlutinn í Grindavík sprunginn

Valur Grettisson skrifar
Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Garðar Páll Vignisson, vildi starf skólastjóra, sem varð meirihlutastjórn að falli.
Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Garðar Páll Vignisson, vildi starf skólastjóra, sem varð meirihlutastjórn að falli.

„Hún er bara sprungin," sagði bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Grindavík, Sigmar Eðvarsson, um stöðu meirihluta bæjarstjórnar í bænum. Svo virðist sem meirihlutinn, sem samanstóð af Framsóknarflokknum og Samfylkingunni, sé einfaldlega sprunginn.

Fyrstu teikn þess mátti sjá á bæjarstjórnarfundi bæjarins þann áttunda apríl en þá lagði Samfylkingin fram bókun um að þeir vildu ráða Garðar Pál Vignisson sem skólastjóra Hópsskóla.

Þessu mótmæltu Framsóknarmenn og vildu fara eftir áliti Capacent og mati Fræðslu og uppeldisnefndar og ráða Maggý Hrönn Hermannsdóttur til verksins. Athygli vekur að Garðar Páll, sem Samfylking vildi sem skólastjóra, situr í bæjarstjórn auk þess sem hann er forseti bæjarstjórnar.

Því vildi Samfylkingin ganga þvert á faglegt álit Capacent og ráða eigin mann til starfanna.

Þessu hafnaði Framsókn með öllu á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi. Sjálfstæðismenn lögðu fram tillögu um að fresta málinu og var hún samþykkt af Sjálfstæðismönnum og Framsókn. Samfylkingin sat hjá.

Nú er meirihlutinn endanlega sprunginn að sögn Sigmars Eðvarssonar en hann segir að forsvarsmenn flokkanna munu hittast síðdegis og ræða um meirihlutasamstarf.

„Við munum ræða við væntanlega samstarfsaðila í dag og innsiglum vonandi samstarfið síðar," segir Sigmar sem lýsir því einnig yfir að hann sé hneykslaður á tilraunum Samfylkingarinnar um að reyna að ráða Garðar gegn faglegu álitið Capacent.

Þetta er í annað sinn sem meirihlutinn springur í Grindavík, en síðast slitnaði upp úr samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.

Aðeins ár er eftir af kjörtímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×