Innlent

Stjórnlagaþingið myndi kosta 1700 milljónir króna

Birgir Ármannsson telur að starfstími stjórnlagaþings yrði aldrei undir 18 mánuðum.
Birgir Ármannsson telur að starfstími stjórnlagaþings yrði aldrei undir 18 mánuðum.

Stjórnlagaþing sem starfar í eitt og hálft ár, líkt og frumvarp forsætisráðherra um breytingar á stjórnskipunarlögum gerir ráð fyrir, mun kosta tæpar 1732 milljónir króna. Þetta kemur fram í kostnaðarmati frá fjármálaráðuneytinu, en málið var rætt á fundi sérnefndar um stjórnarskrármál í morgun.

Í greinargerð og kostnaðarmati frá fjármálaráðuneytinu um þetta efni komu fram eftirfarandi niðurstöður:

Stjórnlagaþing sem starfar í 10 mánuði: 1.176 milljónir króna.

Stjórnlagaþing sem starfar í 18 mánuði: 1.731,6 milljónir króna.

Stjórnlagaþing sem starfar í 24 mánuði: 2.148 milljónir króna.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að stjórnlagaþingið starfi í 18 mánuði, en því er heimilt að stytta eða framlengja tímann, mest þó í 6 mánuði.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í tölvuskeyti til fjölmiðla að í ljósi þess hve verkefni stjórnlagaþings verði viðamikið, og hér sé um fullkomið nýmæli að ræða sem eigi sér engin fordæmi, sé full ástæða til að ætla að starfstíminn verði aldrei undir 18 mánuðum og líklega mun nær 24 mánuðum. Kostnaðurinn verður því að öllum líkindum á bilinu 1.700 til 2.100 milljónir króna.

„Hér er auðvitað um gríðarlegan kostnað að ræða og full ástæða til að krefja forráðamanna ríkisstjórnarinnar svara um það hvort þeim sé í raun og veru alvara með að leggja út í útgjöld af þessu tagi á sama tíma og niðurskurðar er þörf á öllum sviðum ríkisrekstrarins, þ.á.m. í velferðar-, heilbrigðis- og menntamálum," segir Birgir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×