Innlent

Verkefni Varnarmálastofnunar verði hluti af nýju félagi

Keflavíkurflugvöllur. Starfshópur vill sameina ratsjárkerfi Flugstoða og Varnarmálastofnunar í nýju félagi.
Fréttablaðið/Anton
Keflavíkurflugvöllur. Starfshópur vill sameina ratsjárkerfi Flugstoða og Varnarmálastofnunar í nýju félagi. Fréttablaðið/Anton

Starfshópur, sem Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði, telur að stefna eigi að sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. í eitt félag sem fyrst. Jafnframt eigi að kanna hagkvæmni þess að sameina því félagi rekstur ratsjárkerfis og fasteignarekstur Varnarmálastofnunar Íslands á Keflavíkurflugvelli.

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, var formaður starfshópsins, sem lagði fram skýrslu sína í lok september. Meginniðurstaða þeirrar skýrslu er að stefna eigi að því að sameina Keflavíkurflugvöll og Flugstoðir í nýtt félag sem hafi með höndum rekstur flugvalla og flugleiðsögukerfis hér á landi.

Í skýrslunni er vísað í það að samkvæmt stjórnar­sáttmálanum ætli ríkisstjórnin að endurskoða starf Varnarmálastofnunar. Utanríkisráðherra hafi í hyggju að leggja þá stofnun niður í núverandi mynd og færa hluta verkefna hennar til annarra ráðuneyta og stofnana.

Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu hafa ekki farið fram viðræður við utanríkisráðuneytið um þessa hugmynd starfshópsins. Hins vegar sé unnið að undirbúningi sameiningar Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, en hann er nú erlendis. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×