Innlent

Fékk 40 samhljóðainnheimtubréf

Innheimta Íslandsbanki veit ekki til þess að fleiri en Sigurður Örn Zoëga Gunnarsson hafi fengið slíkan fjölda eintaka af sama innheimtubréfinu.Fréttablaðið/Vilhelm
Innheimta Íslandsbanki veit ekki til þess að fleiri en Sigurður Örn Zoëga Gunnarsson hafi fengið slíkan fjölda eintaka af sama innheimtubréfinu.Fréttablaðið/Vilhelm

Viðskiptavini Íslandsbanka brá heldur í brún þegar hann fékk fjörutíu samhljóða innheimtubréf inn um póstlúguna á fimmtudag. Þar var honum tilkynnt að íbúðalán hans hjá bankanum væri komið tuttugu daga yfir gjalddaga.

„Mér finnst þetta fyrst og fremst kjánalegt,“ segir Sigurður Örn Zoëga Gunnarsson. „Ég get skilið að öll þessi eintök séu prentuð út vegna tölvumistaka, en ég skil ekki að einhver setji þau öll í umslög og setji þau í póst.“

Gunnar Kristinn Sigurðsson, sérfræðingur á samskiptasviði Íslandsbanka, segir að eftir athugun innan bankans finnist engar skýringar á því hvers vegna svo mörg bréf hafi verið send. Verið geti að það tengist því að íbúðalán hafi verið færð í nýtt tölvukerfi, en einnig geti vandamálið legið hjá Reiknistofu bankanna, sem sér um að senda bréfin.

Gunnar segist ekki hafa heyrt af fleiri viðskiptavinum sem hafi fengið innheimtubréf í fleiri en einu eintaki.

Í innheimtubréfunum sem Sigurður fékk kemur fram að hann þurfi að greiða 1.200 króna kostnað fyrir að greiða ekki á réttum tíma. Póstburðargjald fyrir fjörutíu bréf nemur 2.800 krónum, þannig að kostnaðurinn dekkar ekki útgjöldin við svo viðamiklar bréfasendingar.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×