Innlent

Fimm með illvíga sýkingu

Á síðustu dögum hafa greinst samtals fimm einstaklingar með sýkingu af völdum Escherichia coli O157 (E. coli O157) samkvæmt upplýsingum frá sýkladeild Landspítala en tilkynning þess efnis birtist á vef Landlæknis nú í kvöld.

Fólkið er á aldrinum 1 árs til 36 ára, þar af eru þrír karlar og tvær konur.

Fjórir þeirra sem greindust eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu en einn á Suðurlandi, en líklegt þykir að rekja megi sýkinguna á Suðurlandi til höfuðborgarsvæðisins. Engin þekkt tengsl eru á milli fólksins og allir smituðust hér á landi.

Upphaf einkenna var á tímabilinu 17. - 23. september og hafa þrír verið lagðir inn á sjúkrahús vegna sýkingarinnar en enginn hefur greinst með alvarlega fylgikvilla af völdum hennar. Ekki er búið að komast að uppruna smitsins, en sóttvarnalæknir vinnur að rannsókn málsins.

E. coli O157 er baktería sem berst með menguðu vatni og matvælum í menn, en smit manna á milli og úr dýrum í menn er einnig vel þekkt. Smit hér á landi er frekar sjaldgæft og fáir greinast því með sýkinguna, en árið 2007 kom upp hópsýking hérlendis af völdum E. coli O157 sem talin var eiga uppruna í salati sem var framleitt í Hollandi.

Helstu einkenni sýkingar í fólki eru niðurgangur, sem mjög oft er blóðugur, og einnig geta fylgt henni slæmir kviðverkir eða uppköst. Bakterían framleiðir ákveðna tegund eiturefnis (toxíns) sem getur leitt til skertrar nýrnastarfsemi og stundum til alvarlegra veikinda, einkum hjá börnum.

Tilkynningu má sjá á vef Landlæknis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×