Lífið

Latabæjarsýning fyrirhuguð á Íslandi

Glanni glæpur og Íþróttaálfurinn endurnýja kynni sín við íslenskt smáfólk þegar ný íslensk Latabæjarsýning verður sett upp á næsta ári.
Glanni glæpur og Íþróttaálfurinn endurnýja kynni sín við íslenskt smáfólk þegar ný íslensk Latabæjarsýning verður sett upp á næsta ári.

Íslenskir aðdáendur Íþróttaálfsins og Sollu stirðu ættu að geta tekið gleði sína á ný. Því samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru forsvarsmenn Latabæjar nánast búnir að ákveða að setja upp Latabæjarleiksýningu á Íslandi á næsta ári.

Tíu ár verða þá liðin síðan leiksýningin Glanni glæpur í Latabæ sló öll aðsóknarmet í Þjóðleikhúsinu. Latibær hóf í kjölfarið mikla útrás til Evrópu, Bandaríkjanna og nú síðast Suður-Ameríku þar sem þetta hugarfóstur Magnúsar Scheving hefur slegið rækilega í gegn.

Latabæjarleiksýningar hafa nú verið settar upp bæði í Mexíkó og á Bretlandi og samkvæmt síðustu tölum höfðu yfir ein milljón aðgöngumiða verið seldir.

Ekki liggur fyrir hvar og hvenær sýningin verður frumsýnd. Hins vegar má reikna með að sýningin verði mikill smellur enda selst Latabæjarvarningur nú sem aldrei fyrr.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er enn ekki komið á hreint hvort leitað verði að nýjum íslenskum Íþróttaálfi eða hvort Magnús Scheving sjálfur bregði sér í ljósbláa ofurhetjubúninginn. Þá hefur ekki fengist staðfest hvort Stefán Karl Stefánsson, sjálfur Glanni glæpur, muni endurtaka hlutverk sitt sem skúrkurinn ógurlegi. Fréttablaðið hafði samband við Hlyn Sigurðsson, upplýsingafulltrúa Latabæjar, en hann vildi hvorki játa né neita því að þetta væri satt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.