Erlent

Ferðamenn tilbúnir að greiða aukalega fyrir þjónustu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hver myndi svo sem ekki punga út nokkrum krónum aukalega fyrir að liggja þarna yfir páskana?
Hver myndi svo sem ekki punga út nokkrum krónum aukalega fyrir að liggja þarna yfir páskana?

Meirihluti ferðalanga er tilbúinn að greiða aukalega fyrir góða og fljótlega þjónustu þrátt fyrir efnahagsástand.

Það var greiðslukortafyrirtækið Visa ásamt ferðaskrifstofu í Asíu sem kannaði hug 5.500 væntanlegra ferðamanna til þess hvort þeir myndu greiða aukalega fyrir góða þjónustu í fríinu eins og í meðalári. Um 60 prósent þeirra sem svöruðu sögðu að þeir myndu enn vera tilbúnir að sjá af nokkrum krónum aukalega í þjórfé og aðrar þjónustutengdar greiðslur ef þjónusta á ferðalaginu væri svo góð að vert væri að verðlauna hana.

Talsmaður Visa sagði það augljóst að nú vildi fólk fá eins mikið og hægt er út úr ferðalaginu sínu. Ferðir til útlanda væru nú orðnar töluvert meiri munaður í augum fjölda manns en þær voru fyrir nokkrum misserum og fólk keypti farseðilinn nú oftar með því hugarfari að njóta frísins til hins ýtrasta þar sem alls óvíst væri hvenær það gæti leyft sér ferðalag til útlanda næst.

Könnunin náði til 11 landa og það reyndust vera Ástralar og Japanar sem voru tilbúnir að borga mest fyrir góða þjónustu á ferðalaginu. Kínverjum finnst hins vegar nauðsynlegt að gera sem mest af því að kynnast menningu og íbúum landsins sem þeir heimsækja. Þá reyndust konur frekar en karlar spenntar fyrir því að heimsækja áður ótroðnar og forvitnilegar slóðir í fríinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×