Íslenski boltinn

Sverrir líklega lánaður til FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverrir Garðarsson.
Sverrir Garðarsson. Mynd/E. Stefán
Allt útlit er fyrir að Sverrir Garðarsson verði lánaður til FH frá sænska B-deildarliðinu GIF Sundsvall.

Sverrir kom til liðsins fyrir síðasta tímabil frá FH og var fastamaður í liðinu framan af tímabil. Meiðsli á öxl gerðu það hins vegar að verkum að hann missti af síðara hluta tímabilsins að stærstum hluta.

Sören Åkeby, þjálfari Sundsvall, hefur ekki valið Sverri í leikmannahóp liðsins í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins í sænsku B-deildinni.

Fyrr í vikunni var greint frá því að Sverrir væri á leið aftur í Hafnarfjörðinn en nú er komið í ljós að um lánssamning er að ræða.

„Sverrir er með samning við okkur til loka ársins 2010 og við teljum hann enn vera efnilegan leikmann sem á erindi í liðið," sagði Cain Dotson, yfirmaður íþróttamála hjá GIF Sundsvall, í samtali við sænska fjölmiðla.

„Við höfum átt í viðræðum við tiltekið félag um að lána hann og erum mjög nálægt því að komast að niðurstöðu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×