Innlent

Sala á áfengi dregst saman - fleiri brugga

Sala á búnaði og efnum til bruggunar hefur aukist um allt að fimmtíu prósent á síðustu mánuðum. Í síðasta mánuði dróst sala á áfengi saman um tæplega þriðjung.

Áfengi hefur hækkað um tæplega 36 % á síðustu tólf mánuðum þá fyrst og fremst vegna skattahækkana og veikingar krónunnar.

Hér á landi hafa verið starfræktar um árabil verslanir sem sérhæfa sig í sölu á efnum og búnaði til bruggunar. Margar verslanir lögðu upp laupana hinu svokallaða góðæri enda kusu Íslendingar þá að kaupa áfengi frá ríkinu í stað þess brugga það sjálfir.

Nú hefur þetta heldur betur tekið breytingum. Sala á búnaði og efnum til bruggunar hefur stóraukist í kjölfar hækkunar á áfengisverði. Í sumum tilfellum hefur salan rokið upp um allt að 50 prósent og ljóst að Íslendingar ætla sér að brugga í kreppunni.

Hjá ÁTVR sjá menn líka vísbendingar um breytt neyslumynstu. Líkt og kom fram í fréttum stöðvar tvö í síðustu viku hefur sala á ódýrum áfengistegundum aukist á kostnað dýrari tegunda á borð við kampavín og brandí.

Sala á áfengi í ágúst dróst saman um tæp 33 prósent á milli mánaða og um 21 prósent milli ára samkvæmt samantekt rannsóknarseturs verslunarinnar. Sú staðreynd að verslunarmannahelgin byrjaði í lok júlímánaðar hefur áhrif á þessar tölur en í heild hefur sala á áfengi hjá ÁTVR aukist á milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×