Innlent

Þjófagengi á ferð við Sauðárkrók

Lögreglan á Sauðárkróki sleppti, að loknum yfirheyrslum í nótt, fimm af þeim sex manneskjum, sem hún handtók í gær vegna ýmissa afbrota. Fyrst voru tvær ungar konur í annarlegu ástandi stöðvaðar á bíl og handteknar, grunaðar um akstur undir áhrifum fíkniefna og að hafa stolið bílnum.

Við athugun á upptökum úr eftirlitsmyndavél við hraðbanka í Varmahlíð kom í ljós að bíllinn hafði verið þar, en þar var reynt að ræna hraðbankanum, eða peningum úr honum. Tveir menn, grunaðir um þá tilraun, voru svo handteknir í sumarbústað skömmu síðar og tvo til viðbótar bar að þegar lögregla var þar á vettvangi, en í bíl þeirra fannst þýfi úr tveimur innbrotum á Akureyri í fyrrinótt. Fólkið á allt sakaferil að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×