Innlent

Kvótabrask í skjóli umdeilanlegra laga

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir

Kvótabrask útgerðarmanna vegna stórvægilegra galla á fiskveiðistjórnunarkerfinu veldur vannýtingu á tilteknum nytjastofnum og milljarðatapi þjóðarbúsins. Byggðirnar í landinu líða fyrir hráefnisskort og eftirlitsaðilar hafa brugðist hlutverki sínu.

Þetta er meðal niðurstaðna þeirra Finnboga Vikar og Þórðar Más Jónssonar, laganema við Háskólann á Bifröst, sem unnið hafa skýrslu um vissa þætti fiskveiðistjórnunar-kerfisins. Í skýrslunni taka þeir Finnbogi og Þórður dæmi sem virðast sýna það svart á hvítu hvernig útgerðarmenn nýta verðlitlar tegundir til að geta leigt út aðrar verðmætari með tilheyrandi ávinningi. Úthafsrækja hafi til dæmis í flestum tilfellum verið leigð til að auka framsalsheimildir, eins og skýrsluhöfundar benda á að komi fram í skýrslu stjórnar LÍÚ 2007/2008.

Er tegundum eins og rækju safnað með færslum á einstök skip til að leigja dýrari tegundir sem skipinu er úthlutað. Þannig er til dæmis mögulegt að leigja þorsk eða ýsu vel umfram það hlutfall sem leyfilegt var í upphafi fiskveiðiársins samkvæmt lögum. Þeir sem hafa áhuga á því að veiða úthafsrækjuna hafa enga möguleika til þess, þar sem veiðiheimildirnar eru bundnar hjá þeim sem kjósa að nýta þær ekki. Þjóðarbúið verður þannig af gríðarlegum verðmætum, að mati Finnboga og Þórðar.

Fiskistofa er harðlega gagnrýnd fyrir að leyfa ýmsar færslur á kvóta á milli skipa, og tekið er sem dæmi að slíkar færslur séu leyfðar þó að sýnt sé að viðkomandi skip hafi hvorki getu né tíma til að stunda veiðarnar. Fiskistofa hefur vísað gagnrýninni frá sér og vísar á löggjafann um svör við því hvort einstök atriði í framkvæmd laganna séu réttlætanleg.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, segir að allar þær upplýsingar sem hún hafi fengið við skriflegri fyrirspurn um aflaheimildir og tilfærslur á þeim staðfesti að verið sé að nota kvótakerfið á skjön við lögin. „Það er verið að nota þetta sem leiguliðakerfi með því að nýta glufur í lögunum. Í þessu er lokun kerfisins fólgin og óréttlæti þess að hluta til."

Ólína beinir þeirri spurningu til ráðherra hvernig ráðuneyti hans ætli að bregðast við þeim upplýsingum sem nú séu komnar fram, sem hún segir marktækar og alvarlegar.

Ekki náðist í Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra við vinnslu fréttarinnar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×