Íslenski boltinn

Finnur: Áskorun að fara til Eyja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Finnur Ólafsson í leik með HK.
Finnur Ólafsson í leik með HK. Mynd/Anton

Finnur Ólafsson segir að honum hafi staðið til boða að fara bæði til ÍBV og Stjörnunnar en hann skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Eyjamenn.

„Það er vel haldið um hlutina hér í Eyjum og metnaðarfullt verkefni framundan sem ég vildi fá að taka þátt í," sagði Finnur í samtali við Vísi í dag.

Hann hafði þegar gefið út að hann vildi spila í efstu deild en uppeldisfélag hans, HK, mistókst að endurheimta sæti sitt í úrvalsdeildinni síðastliðið haust.

„Það var auðvitað erfitt að yfirgefa uppeldisfélagið en ég ákvað að taka þetta skref og er sáttur við það. Ég vona að HK komist upp sem allra fyrst enda mun ég alltaf vera HK-ingur."

Hann segir að fleiri félög hafi sett sig í samband við HK með það fyrir augum að fá Finn. „HK setti á mig ákveðinn verðmiða og á endanum stóð mér til boða að fara til ÍBV og Stjörnunnar."

„Mér fannst það kjörið að fara til Eyja enda mikil áskorun fólgin í því fyrir mig. Hér þarf ég að sýna mig og sanna."

Þeir Tryggvi Guðmundsson og Ásgeir Aron Ásgeirsson voru þegar búnir að semja við ÍBV og segir Finn spennandi tíma framundan í Eyjum. „Það ríkir gríðarlega mikill metnaður hér í Eyjum og ætla þeir sér að styrkja sig enn frekar fyrir átökin næsta sumar. Það er alveg ljóst að hingað er ég ekki kominn til að taka þátt í botnbaráttunni."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×