Enski boltinn

Pepe Reina: Fernando Torres er betri en Didier Drogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe Reina og Fernando Torres sjást hér saman á æfingu með spænska landsliðinu.
Pepe Reina og Fernando Torres sjást hér saman á æfingu með spænska landsliðinu. Mynd/AFP

Pepe Reina segir enginn vafa vera í sínum huga að Fernando Torres sé besti framherjinn í ensku úrvalsdeildinni. Margir líta á leik Chelsea og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag sem einvígi tveggja heitustu framherja deildarinnar, Fernando Torres hjá Liverpool og Didier Drogba hjá Chelsea.

„Að mínu mati þá er Fernando Torres besti framherjinn í deildinni," sagði Pepe Reina í viðtali við Daily Mirror. „Ég hef mikla trú á mínum liðsfélaga. Þetta gæti orðið mjög sérstakur leikur því ég veit að Torres lítur á þennan leik sérstökum augum," sagði Reina en Torres hefur skorað 3 mörk í tveimur deildarleikjum sínum á móti Chelsea.

„Drogba hefur byrjað tímabilið vel en við megum ekki hræðast hann. Við vitum samt að við þurfum að spila betri vörn en á móti Fiorentina því annars mun hann skora. Við getum það vel," sagði Reina.

„Þessi leikur er stórt próf fyrir okkur ef við ætlum að sýna það að við getum unnið titilinn. Við höfum trú á því og þá þurfum við að vinna á erfiðum útivöllum eins og Stamford Bridge," sagði spænski markvörðurinn.

„Ég tel að sigur í þessum leik sýni öllum að við getum orðið meistarar. Ég efast ekki umþað að við getum verið betri en Chelsea á þessu tímabili en við þurfum að sýna það á vellinum," sagði Reina að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×