Innlent

Sáttmáli í uppnámi

Aðilar vinnumarkaðarins gagnrýna stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi og spyrja hvort ríkisstjórnin hafi gleymt stöðugleikasáttmála um endurreisn efnahagslífsins sem var undirritaður í júní. Starfsgreinasambandið áréttar að sáttmálinn hafi ekki „verið undirritaður upp á grín".

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ljóst að síðan gengið var frá stöðugleikasáttmálanum hafi Alþingi verið upptekið af aðeins einu máli - Icesave. Því hafi ekki verið unnið sem skyldi að þeim fjölmörgu verkefnum sem sett voru fram í sáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisins í lok júní.

„Þetta er mjög alvarlegt mál og grátlegt að Alþingi hafi varið sextán vikum í þetta mál og ekkert tekið á skuldavanda heimilanna á meðan."

Gylfi segir veikingu krónunnar, og minnkandi líkur á að Seðlabankinn lækki vexti þess vegna, sérstakt áhyggjuefni.

„Einnig var samið um að lífeyrissjóðirnir myndu fjármagna verkefni utan ríkisreiknings. Það átti að vera að frumkvæði fjármála-, samgöngu- og heilbrigðisráðuneytisins að útfæra þau verkefni en það hefur ekki verið gert."

Gylfi segir að nýlega hafi verið haldinn samráðsfundur með ríkinu og aðilar vinnumarkaðarins hafi allir beint gagnrýni að ríkisstjórninni fyrir hversu hægt gengur að framkvæma það sem stöðugleikasáttin fjallaði um. „Það er alveg ljóst að það eru fyrirvarar á þessu samstarfi öllu. Ef ríkisstjórnin stendur ekki við sitt er ekkert víst að þetta haldi áfram."

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur undir gagnrýnina og segir ekkert bera á „viðspyrnunni" sem mönnum hafi verið tamt að tala um. Hann segir að það verði að greiða úr vanda fyrirtækjanna í landinu sem öll bíði aðgerða og nú þegar verði að fara í framkvæmdir, til dæmis þær sem lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir að fjárfesta í.

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins ályktaði á þriðjudag um stöðugleikasáttina. Framkvæmdastjórnin leggur á það áherslu að koma þurfi verkefnum af stað. Það dugar ekki að ríkisstjórnin dragi lappirnar og að einstaka ráðherrar horfi til búskaparhátta frá miðri síðustu öld og þvælist fyrir mikilvægum nútímaframkvæmdum sem þegar eru á borðinu.

Ekki náðist í Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í gær.

- shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×