Íslenski boltinn

Arnar líklega á leið til Hauka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson í leik með FH.
Arnar Gunnlaugsson í leik með FH.

Flest bendir til þess að Arnar Gunnlaugsson spili með nýliðum Hauka í Pepsi-deildinni næsta sumar. Þetta staðfesti Arnar við Vísi í dag.

„Ég hitti Haukana í gær og það var mjög gaman að hitta þá. Þeir höfðu margt áhugavert fram að færa og mér leist vel á það sem þeir höfðu að segja. Við ræðum betur saman um helgina en ég tel afar líklegt að ég semji við þá," sagði Arnar en Haukar er eina liðið sem hefur sett sig í samband við hann.

Haukarnir hafa boðið Arnari stöðu aðstoðarþjálfara ásamt því að spila með liðinu.

„Andri hefur náð frábærum árangri með þetta lið. Það er fínt að gagnrýna sjálfan sig aðeins. Ég er tiltölulega nýhættur með lið og maður hélt kannski að maður væri fullmótaður þjálfari en það tekur víst tíma. Ég var kannski of góður með sjálfan mig að halda að ég væri orðinn fullmótaður. Það er því fínt að vera aðeins fyrir aftan og læra af öðrum," sagði Arnar sem mun ekki byrja að æfa með Haukum fyrr en eftir áramót.

„Ég þarf aðeins að fá hvíld og mæti svo sprækur þegar styttist í sumarið. Líkaminn er í fínu standi þó svo ég sé orðinn hægari en andskotinn. Ég tel mig samt hafa ýmislegt fram að færa," sagði Arnar Gunnlaugsson sem verður væntanlega orðinn leikmaður Hauka um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×