Innlent

Kærður fyrir að aka snjótroðara á mann

snjótroðari Snjótroðarar eru nokkurra tonna ferlíki, eins og sjá má á myndinni. Þar er þó ekki um að ræða umræddan snjótroðara á Langjökli heldur troðara úr Bláfjöllum sem er málinu óviðkomandi. Hvorugur mannanna vildi tjá sig um málið í gær.
snjótroðari Snjótroðarar eru nokkurra tonna ferlíki, eins og sjá má á myndinni. Þar er þó ekki um að ræða umræddan snjótroðara á Langjökli heldur troðara úr Bláfjöllum sem er málinu óviðkomandi. Hvorugur mannanna vildi tjá sig um málið í gær.

Afar sérstætt líkamsárásarmál hefur verið kært til lögreglunnar á Selfossi. Karlmaður hefur kært annan mann fyrir að aka á sig á snjótroðara uppi á jökli, þannig að meiðsl hlutust af. Meint líkamsárás með snjótroðaranum átti sér stað síðastliðinn föstudag.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins á málið rætur sínar að rekja töluvert langt aftur í tímann. Mennirnir tveir sem um ræðir sameinuðu fyrirtæki sín um jöklaferðir fyrir nokkru síðan. Það samstarf gekk ekki upp þannig að leiðir skildu og sá sem fór út úr fyrirtækinu stofnaði eigið fyrirtæki.

Ekki undu allir sáttir eftir samvinnuslitin því í febrúar setti sá, sem nú telur sig hafa orðið fyrir árásinni, sig í samband við lögreglu. Kvað hann fyrrverandi samstarfsaðilann hafa ætlað að fljúga á sig og berja sig þar sem þeir hittust á förnum vegi í Reykjavík. Hann hefði náð að halda manninum frá sér þannig að ekkert hefði orðið úr barsmíðunum. Bað hann um að atvikið yrði bókað hjá lögreglu sem var gert.

Þá hafa staðið deilur um slóð sem menn nota í sleðaferðum með ferðamenn upp á Langjökul. Er deilt um hvort eitthvert eitt ferðaþjónustufyrirtæki hafi meiri rétt til þess að nota slóðina en önnur.

Atvikið á föstudaginn varð með þeim hætti, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins, að sá sem kveðst hafa orðið fyrir líkamsárásinni var að hefja ferð upp á jökul með starfsfólk og ferðamenn. Þá hafi hinn ákærði verið búinn að leggja snjótroðaranum, svo og stórum trukk, þvert á slóðina. Einhver samskipti hafi mennirnir tveir átt vegna þessa.

Ökumaður troðarans hafði þá snúið tækinu á punktinum með þeim afleiðingum að maðurinn fékk högg á bakið við herðablaðið og þeyttist flatur eftir ísnum. Hann hafi hlotið áverka en snjótroðaramaðurinn ekið í hasti á brott.

Maðurinn lagði fram kæru til lögreglu í fyrradag.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×