Innlent

Gáfu skýrslu í rúma fjóra tíma

Ramses-fjölskyldan. Þau búast við að fá svör frá Útlendingastofnun á allra næstu vikum um hvort þau fá hæli hér á landi eður ei.Fréttablaðið/Anton
Ramses-fjölskyldan. Þau búast við að fá svör frá Útlendingastofnun á allra næstu vikum um hvort þau fá hæli hér á landi eður ei.Fréttablaðið/Anton

Útlendingastofnun fékk hælisleitendurna Paul og Rosemary Ramses í skýrslutöku í síðustu viku, vegna umsóknar þeirra um hæli hér á landi.

Skýrslutakan tók rúmar fjórar klukkustundir og var rætt við hjónin hvort í sínu lagi. Þetta er í þriðja sinn sem Paul þarf að gefa skýrslu vegna umsóknar sinnar um hæli á Íslandi.

Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Ramses-fjölskyldunnar, segir að skýrslutakan hafi gengið vel.

„Þau eru alltaf sjálfum sér samkvæm og afskaplega trúverðug,“ segir hún.

Að skýrslutöku lokinni hafi verið gefin fyrirheit af hálfu stofnunarinnar um að umsóknarferlið yrði klárað á allra næstu vikum. Aðspurð segir hún ekki óalgengt að hælisleitendur sitji fyrir svörum í svo langan tíma í senn.

Fram hefur komið í blaðinu að Paul og Rosemary bíða enn eftir svari frá Útlendingastofnun um hvort þau fá að setjast hér að eður ei. Paul sótti fyrst um hæli í febrúar 2008.

Syni þeirra, Fídel Smára, hefur verið meinuð vist á leikskólum Reykjavíkurborgar, þar sem foreldrarnir eru ekki skráðir í íslenska kerfið. Nú síðast var Rosemary bannað að þreyta ökupróf, af sömu ástæðu. Þau eru bæði í vinnu og greiða skatta. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×