Innlent

Atvinnumissir unnustu er mögulega orsök árásarinnar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á vettvangi Hurðin sem skotið var á með haglabyssu aðfaranótt sunnudags.
Á vettvangi Hurðin sem skotið var á með haglabyssu aðfaranótt sunnudags. Fréttablaðið/Anton
Par á þrítugsaldri var handtekið seint að kvöldi sunnudags vegna árásar með haglabyssu í Seljahverfi í Breiðholti um klukkan hálf fjögur aðfaranótt sunnudagsins.

Maður á þrítugsaldri skaut nokkrum sinnum á útidyr og glugga, en húsráðandi náði að skella aftur hurðinni eftir að árásarmaðurinn hafði slegið hann í andlitið með byssuskeftinu.

Að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, var árásarmaðurinn síðdegis í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags. Einnig var farið fram á gæsluvarðhald yfir konunni, en dómari hafnaði því. Konan var því látin laus.

Maðurinn sem ráðist var á býr einn í íbúð sinni og þekkti ekki árásarmanninn.

Samkvæmt heimildum blaðsins tengjast þeir þó óbeint í því að fórnarlamb árásarinnar hafði verið vinnuveitandi unnustu árásarmannsins. Henni hafði verið sagt upp störfum og leikur því grunur á að um einhvers konar hefndaraðgerð hafi verið að ræða.

Nágrannar í nærliggjandi húsum vöknuðu við skothvellina aðfaranótt sunnudagsins og var sumum hverjum nokkuð brugðið vegna atburðarins. Yfirheyrslur yfir parinu stóðu fram á miðjan dag í gær, eða þar til þau voru leidd fyrir dómara síðdegis vegna gæsluvarðhaldskröfunnar. Friðrik Smári segir rannsókn málsins halda áfram, en hún beinist meðal annars að því hvað manninum hafi í raun gengið til þarna um nóttina.

Maðurinn hefur játað að hafa skotið á húsið, en ekki liggur fyrir hvort ætlunin hafi verið að vinna húsráðanda mein.

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir vert að staldra við ofbeldisglæpi sem þennan, þótt ekki sé hægt að draga víðtækar ályktanir um aukið óþol í samfélaginu og ofbeldisaukningu út frá einu dæmi.

„Maður veit svo sem ekki hvað þarna lá að baki. Kannski var maðurinn bara að reyna að ganga í augun á unnustu sinni,“ segir hann en bætir um leið við að vissulega beri árásin dálítið „örvæntingarfullt“ yfirbragð.

Helgi segir hins vegar þekkt að fyrst eftir snöggar samfélagsbreytingar, líkt og hér hafi orðið með efnahagshruninu, að fyrst á eftir geti orðið til nokkurs konar samhugur, en þegar frá líður og áhrif verða ljós á líf tiltekinna einstaklinga kunni að gæta annarra áhrifa.

„Einhverjir missa vinnuna og geta ekki borgað reikningana sína og þá er hægt að fara að búast við dálítið örvæntingarfullum atburðum. Snöggar þjóðfélagsbreytingar geta haft áhrif út í samfélagið og hópar þjóðfélagsins eru misvel búnir til að takast á við þær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×