Íslenski boltinn

Haukur Ingi mætir á gamla heimavöllinn í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haukur Ingi Guðnason í Fylkisbúningnum á síðustu leiktíð.
Haukur Ingi Guðnason í Fylkisbúningnum á síðustu leiktíð. Mynd/Daníel

Haukur Ingi Guðnason mun í kvöld mæta aftur á sinn gamla heimavöll með Keflavíkurliðinu en hann lék í sjö ár með Fylki.

Samningur Hauks Inga við Fylki rann út um síðustu áramót og ákvað hann í kjölfarið að semja við Keflavík sem er hans uppeldisfélag.

„Það ríkir tilhlökkun fyrir leikinn í kvöld og að spila aftur í Árbænum. Þetta var minn heimavöllur í sjö ár og verður skemmtilegt að spila þar gegn gömlu félögunum með jafnvel enn eldri félögum í liði."

Hann segir að breytingin hafi ekki verið mjög erfið enda þekkir hann vel til í Keflavík. „Hérna var ég með alla mína yngri flokka og samtals í einhver 15 ár. Ég þekki því alla hjá félaginu og þekki líka leikmennina vel."

Annar leikmaður sem fór frá Fylki eftir síðasta tímabil er Ian Jeffs en hann lék með sínu nýja félagi, Val, á Fylkisvellinum nú í fyrstu umferð mótsins. Óhætt er að segja að Jeffs hafi fengið óblíðar móttökur hjá stuðningsmönnum Fylkis sem púuðu á Jeffs allan leikinn.

„Jeffsy fór ef til vill undir erfiðari kringumstæðum en ég. Ég vona því að móttökurnar verði aðeins blíðari. Það væri óneitanlega skemmtilegra."

Keflavík og Fylkir unnu bæði sína leiki í fyrstu umferð - í báðum tilfellum mjög sterka anstæðinga. Keflavík vann FH og Fylkir vann Val.

„Fylkir er með mjög skemmtilegt lið," sagði Haukur Ingi sem æfði með liðinu fram til síðustu áramóta. „Þeir hafa safnað reynslumiklum leikmönnum sem eru þar í bland við unga og efnilega stráka. Þeir hafa náð að vinna saman sem lið og leggja sig virkilega mikið fram. Það gæti reynst þeim afar dýrmætt."

„Ég á því von á erfiðum leik og þurfum við að leggja okkur 110 prósent fram til að eiga möguleika að ná einhverju úr honum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×