Innlent

Segir samræmd próf vera ofmetna aðferð

Formaður starfshóps um námsmat í grunnskólum segir að hópurinn muni hafa víðtækt samstarf við fagaðila. Ætlunin er, meðal annars, að kortleggja mismunandi aðferðir við námsmat sem notaðar eru í skólunum. Nemendur í Hlíðaskóla við samræmd próf.fréttablaðið/gva
Formaður starfshóps um námsmat í grunnskólum segir að hópurinn muni hafa víðtækt samstarf við fagaðila. Ætlunin er, meðal annars, að kortleggja mismunandi aðferðir við námsmat sem notaðar eru í skólunum. Nemendur í Hlíðaskóla við samræmd próf.fréttablaðið/gva

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, formaður starfshóps um námsmat í grunnskólum Reykjavíkurborgar, hafnar því að ekki verði haft samráð við fagaðila. Formaður Skólastjórafélags Reykjavíkur kvartaði yfir því í Fréttablaðinu í gær og taldi líklegt að niðurstaða hópsins yrði gefin fyrirfram.

Lilja Dögg segir það af og frá; ákveðið hafi verið að hafa starfshópinn fámennan og aðeins skipaðan stjórnmálamönnum sem flestir hagsmunaaðilar yrðu síðan kallaðir til samstarfs við. Hún eigi til að mynda fund með skólastjórum á morgun. Þá verði haft samstarf við menntamálaráðuneytið.

„Starf hópsins verður þríþætt. Í fyrsta lagi ætlum við að gera heildarúttekt á námsaðferðum í grunnskólum borgarinnar. Þá ætlum við að kanna hvernig samræmd könnunarpróf í tíunda bekk hafi nýst og í þriðja lagi hvort jafnræðis sé gætt við inntöku nemenda í framhaldsskóla.“

Kjartan Magnússon, formaður menntaráðs, lýsti því yfir í Fréttablaðinu á mánudag að hann vildi taka upp samræmd próf upp úr grunnskólum. Lilja segist munu móta sína skoðun eftir vinnu starfshópsins.

Jón Torfi Jónasson, prófessor við Háskóla Íslands og forseti menntavísindasviðs skólans, segir hið besta mál að skoða hugmyndir um námsmat upp á nýtt. Samræmd próf upp úr skólum hafi hins vegar nánast aldrei gegnt því hlutverki sem þau áttu að gegna; að vera upplýsingatæki fyrir skólana svo þeir gætu bætt um betur fyrir þá nemendur sem prófin þreyta. Þau hafi hins vegar virkað sem aðhaldstæki, en spurning sé hvort þau séu rétta meðalið.

Jón Torfi segir samræmdu prófin hafa haft ótrúleg áhrif í gegnum tíðina og stýrt áherslum skóla, miðað við hve litlu máli þau í raun og veru hafi skipt. Yfirleitt hafi nemendur tekið samræmd próf og farið síðan í heimaskóla, en það hafi skipt tiltölulega lítinn hóp máli.

„Þegar skólakerfið nær ekki að taka við öllum eins og gerðist í vetur og fyrir nokkrum árum, skipta prófin máli fyrir ákveðinn hóp nemenda og þá stundum til skaða.“ Flestir nemendur hafi tekið prófin og haldið áfram, aldrei skoðað einkunnirnar aftur. „Fyrir mjög stóran hlut nemenda skiptir einkunnin í sjálfu sér engu máli.“

kolbeinn@frettabladid.is

lilja dögg alfreðsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×