Innlent

Þarf ekki að kaupa siðferðilega aflausn

„Það sem miður góðviljaðir aðilar hafa rætt og ritað um þetta sýnir aðeins þeirra innræti en ekki mitt og er þar af leiðandi þeirra vandamál en ekki mitt,“ segir á bloggsíðu nýkjörins alþingismanns vegna umræðu um heiðurslaun hans.
„Það sem miður góðviljaðir aðilar hafa rætt og ritað um þetta sýnir aðeins þeirra innræti en ekki mitt og er þar af leiðandi þeirra vandamál en ekki mitt,“ segir á bloggsíðu nýkjörins alþingismanns vegna umræðu um heiðurslaun hans.

Þráinn Bertelsson, nýkjörinn alþingismaður Borgarahreyfingarinnar, hyggst ekki afsala sér heiðurslaunum listamanna sem Alþingi hefur um árabil samþykkt honum til handa.

„Góðviljaðir aðilar hafa ráðlagt mér að kaupa mig undan þessari athygli með því að gefa andvirði heiðurslauna til einhvers líknarfélags en þeirri lausn hafna ég, enda þarf ég ekki að kaupa mér siðferðilega aflausn hafandi ekkert af mér brotið - annað en þiggja án umsóknar æðstu viðurkenningu sem íslenska þjóðin kann að veita listamönnum sínum," segir Þráinn í yfirlýsingu.

„Það er illt til þess að vita að heiðurslaun mín sem nema eitthundrað og fimmtíu þúsund krónum á mánuði fyrir skatta - og hafa ekkert með starfslaun listamanna að gera - skuli hafa valdið svona mikilli fjölmiðlaathygli og vandlætingu," bætir Þráinn við og segir mörg fordæmi fyrir því að alþingismenn þiggi önnur laun en þingfararkaup.

„Jafnframt er það regla fremur en undantekning að heiðurslaunaþegar þiggi laun eða eftirlaun fyrir önnur störf, enda væru heiðurslaun ekki annað en fátæktargildra ef ekki væri heimilt að afla tekna umfram þau."

Í tillögu sem stjórn Borgarahreyfingarinnar samþykkti og sendi þingmönnum sínum í gær kemur fram að stjórnin telji starf þingmanns vera fullt starf og að þingmenn eigi ekki að taka laun frá Alþingi fyrir önnur störf ótengd þingstörfum meðan á þingsetu stendur. Slíkum launum eigi annað hvort að afsala eða láta renna til góðgerðarmála.

„Í tilfelli Þráins Bertelssonar þá telur stjórnin að hafa beri í huga að heiðurslaun til listamanna eru verðlaun fyrir áður unnin störf og fyrir framúrskarandi árangur á sviði lista, en ekki hefðbundin laun í skilningi þess orðs, þótt verðlaunin séu greidd út reglulega og yfir langt tímabil. Því er það á hans færi að ákveða með hvaða hætti hann nýtir þau laun," segir stjórn Borgarahreyfingarinnar.- gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×